Öld bláa gullsins og einkavæðing vatns á Íslandi

Nýjasta dæmið um einkavinavæðingu vatns er frá síðasta ári þegar sveitastjórnin í Ölfusi framseldi einkafyrirtæki öll vatnsréttindi í sveitarfélaginu um ókomna framtíð . Auk þess seldi hún sama fyrirtæki jörð í eigu sveitarfélagsins á gjafverði til að reisa þar vatnsátöppunarverksmiðju og til nýtingar vatns á svæðinu. 100 milljónir var verðið og ekkert út.  Fyrsta greiðsla síðan að 5 árum liðnum, verðtryggt en vaxtalaust. Nú getur fyrirtækið tappað vatni að vild á flöskur til útflutnings og sveitarfélagið fær ekki krónu fyrir vatnið. Allt í þágu uppbyggingar atvinnustarfsemi. Áætlað er að verksmiðjan skapi 40-50 störf í framtíðinni.  Svo getum við reiknað dæmið sjálf hvort þetta borgar sig. Hér er verið að selja auðlindir íbúanna án nokkurs samráðs við þá.  Þeir geta að vísu kennt sjálfum sér um því þeir kusu  þessa stjórn yfir sig í síðustu kosningum. Það er hins vegar nauðsynlegt að reyna að sporna við þessari þróun með skýrari lagasetningum um eignarhald á auðlindum.  

Hin hliðin á málinu í Ölfusi tengist ákvörðun um matsskyldu framkvæmda líkt og umræðan um litlar virkjanir síðust daga. Skipulagsstofnun mat að framkvæmd vegna átöppunarverksmiðju í Ölfusi væri ekki líkleg til að hafa veruleg umhverfisáhrif. Sú ákvörðun var kærð til umhverfisráðherra sem nú fjallar um málið. Við skulum vona að ráðherra beri gæfu til að sjá lengra en Skipulagsstofnun og setja framkvæmdina í umhverfismat. Ef það verður ekki gert er búið að gefa fordæmi sem með tímanum á eftir að valda miklum skaða á umhverfinu þegar horft er til framtíðar. Þó nóg sé af vatni á Íslandi núna þarf svo ekki að vera um aldur og ævi. Sjáum til dæmis hvernig sumarið hefur verið. Hvaða áhrif koma þurrka kaflar til með að hafa á grunnvatnsstöðuna ef lægðaferlar breytast til frambúðar?

Það var nokkuð merkilegt að sjá iðnaðarráðherra kætast yfir  fréttum um vinnslu grunnvatns í Ölfusi  vegna þess eins að hann taldi að upprisa eiganda verksmiðjunnar væri þyrnir í augum Davíðs Oddssonar. Iðnaðarráðherra hefði verið nær að kynna sér framkvæmdirnar betur þannig að ekki kæmi nú til þess eftir nokkur ár að  einhver í sömu sporum og hann þyrfti að gefa út takmarkað starfsleyfi vegna þess að framkvæmdaraðilar uppfylltu ekki skilyrði um mótvægisaðgerðir eða að umhverfisáhrif voru mun meiri en búist hafði verið við.

Verum varkár vörumst slysin, allar framkvæmdir tengdar vinnslu grunnvatns til neyslu og sölu í umhverfismat án undantekninga. Þannig er mögulegt að almenningur geti haft áhrif áður en meiriháttar umhverfisslys hljótast af.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband