Öld bláa gullsins og einkavæðing vatns á Íslandi

Nýjasta dæmið um einkavinavæðingu vatns er frá síðasta ári þegar sveitastjórnin í Ölfusi framseldi einkafyrirtæki öll vatnsréttindi í sveitarfélaginu um ókomna framtíð . Auk þess seldi hún sama fyrirtæki jörð í eigu sveitarfélagsins á gjafverði til að reisa þar vatnsátöppunarverksmiðju og til nýtingar vatns á svæðinu. 100 milljónir var verðið og ekkert út.  Fyrsta greiðsla síðan að 5 árum liðnum, verðtryggt en vaxtalaust. Nú getur fyrirtækið tappað vatni að vild á flöskur til útflutnings og sveitarfélagið fær ekki krónu fyrir vatnið. Allt í þágu uppbyggingar atvinnustarfsemi. Áætlað er að verksmiðjan skapi 40-50 störf í framtíðinni.  Svo getum við reiknað dæmið sjálf hvort þetta borgar sig. Hér er verið að selja auðlindir íbúanna án nokkurs samráðs við þá.  Þeir geta að vísu kennt sjálfum sér um því þeir kusu  þessa stjórn yfir sig í síðustu kosningum. Það er hins vegar nauðsynlegt að reyna að sporna við þessari þróun með skýrari lagasetningum um eignarhald á auðlindum.  

Hin hliðin á málinu í Ölfusi tengist ákvörðun um matsskyldu framkvæmda líkt og umræðan um litlar virkjanir síðust daga. Skipulagsstofnun mat að framkvæmd vegna átöppunarverksmiðju í Ölfusi væri ekki líkleg til að hafa veruleg umhverfisáhrif. Sú ákvörðun var kærð til umhverfisráðherra sem nú fjallar um málið. Við skulum vona að ráðherra beri gæfu til að sjá lengra en Skipulagsstofnun og setja framkvæmdina í umhverfismat. Ef það verður ekki gert er búið að gefa fordæmi sem með tímanum á eftir að valda miklum skaða á umhverfinu þegar horft er til framtíðar. Þó nóg sé af vatni á Íslandi núna þarf svo ekki að vera um aldur og ævi. Sjáum til dæmis hvernig sumarið hefur verið. Hvaða áhrif koma þurrka kaflar til með að hafa á grunnvatnsstöðuna ef lægðaferlar breytast til frambúðar?

Það var nokkuð merkilegt að sjá iðnaðarráðherra kætast yfir  fréttum um vinnslu grunnvatns í Ölfusi  vegna þess eins að hann taldi að upprisa eiganda verksmiðjunnar væri þyrnir í augum Davíðs Oddssonar. Iðnaðarráðherra hefði verið nær að kynna sér framkvæmdirnar betur þannig að ekki kæmi nú til þess eftir nokkur ár að  einhver í sömu sporum og hann þyrfti að gefa út takmarkað starfsleyfi vegna þess að framkvæmdaraðilar uppfylltu ekki skilyrði um mótvægisaðgerðir eða að umhverfisáhrif voru mun meiri en búist hafði verið við.

Verum varkár vörumst slysin, allar framkvæmdir tengdar vinnslu grunnvatns til neyslu og sölu í umhverfismat án undantekninga. Þannig er mögulegt að almenningur geti haft áhrif áður en meiriháttar umhverfisslys hljótast af.


Vanhæfni Skipulagsstofnunar

Skipulagsstofnun birti í dag svohljóðandi tilkynningu á heimasíðu sinni:

Yfirlýsing frá Skipulagsstofnun
Vegna ummæla og umræðna í fjölmiðlum undanfarna daga, um mat á umhverfisáhrifum og eftirlit með framkvæmdum við smávirkjanir, vill Skipulagsstofnun árétta eftirfarandi:
Sveitarstjórn ber ábyrgð á að útgefin framkvæmdaleyfi séu í samræmi við gildandi skipulagsáætlanir sveitarfélagsins samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997og niðurstöðu um mat á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000. Það er óháð því hvort um er að ræða stóra eða smáa framkvæmd. Það er hlutverk skipulagsfulltrúa sveitarfélagsins eða skipulags- og byggingarfulltrúa, í umboði sveitarstjórnar, að annast eftirlit með því að framkvæmdir séu í samræmi við samþykkt framkvæmdaleyfi sveitarstjórnar.

(innf. 27. júlí 2007)

Skipulagsstofnun reynir með þessu að réttlæta ákvarðanir sínar um að Múlavirkjun og virkjun í Fjarðará þyrftu ekki að fara í umhverfismat. Miðað við það sem gerst hefur á þessum stöðum þá er það ljóst að Skipulagsstofnun er ekki að standa sig sem framkvæmdaraðili reglugerðar nr. 1123/2005 um mat á umhverfisáhrifum. Það er með öllu óþolandi að þessi stofnun skuli ekki vera harðari í túlkunum á ákvæðum í 3. viðauka reglugerðarinnar þegar kemur að ákvörðun um matsskyldu framkvæmda sem heyra undir viðauka 2. í þeirri sömu reglugerð. Á mannamáli, ef minnsti vafi leikur á því að framkvæmd sé líkleg til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif þá á framkvæmdin að fara í umhverfismat. Ákvæði um mótvægisaðgerðir og vöktun er metið allt of mikils við ákvörðun um matsskyldu. Eins og dæmin sýna þá getur framkvæmdaraðili sent inn tillögur um mótvægisaðgerðir sem hann veit að Skipulagsstofnun mun gleypa við án þess að gera frekari kröfur um að framkvæmdaraðili sýni fram á að þær séu framkvæmanlegar og þjóni hlutverki sínu. Skipulagsstofnun veit sem er að þá er vandamálið ekki lengur á þeirra könnu heldur hjá einstökum sveitarfélögum sem oftar en ekki eru einnig framkvæmdaraðili eða tengdir framkvæmdum í gegnum pólitík. Hvaða vit er í því? Íbúar sveitarfélagana eru þannig settir í erfiða aðstöðu því ólíklegt er að eftirlitsaðili ( sveitarfélagið ) bregðist við umkvörtunum frá þeim eða sinni eftirlitsskyldu sinni þegar hann situr báðumegin borðsins 

Ef Skipulagsstofnun sinnti betur 10. gr. laga nr. 37/1993,  rannsóknarreglunni mundu mun fleirri framkvæmdir sem heyra undir 2. viðauka reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum fara í umhvefismat. Það er eðlilegt á tímum vaxandi umhverfisverndar að svo sé. Það ætti að heyra til undantekninga ef framkvæmd skv. 2. viðauka væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Eins og staðan er í dag þá er allt of mikið um það að framkvæmdaraðilar leggi fram áætlanir um framkvæmdir í smá bútum til þess að komast hjá mati á umhvefisáhrifum. Umhverfisstofnun og Heilbrigðiseftirlit sveitarfélagana sem oft eru umsagnaraðilar í matsskylduákvörðunum eru heldur ekki að standa sig og geta tekið sig verulega á.

Mál eins og þau tvö sem nefnd eru hér að framan væru ekki í umræðunni í dag ef Skipulagsstofnun sinnti hlutverki sínu.

Helst þyrfti að breyta reglugerð um mat á umhverfisáhrifum og gera allar framkvæmdir í 2. viðauka matsskyldar. Það verður víst seint en á meðan þarf Skipulagsstofnun að vera harðari í því að kalla eftir umsögnum og áliti sérfróðra manna áður en ákvörðun um matsskyldu er tekin.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband